Enski boltinn

Petr Cech verður frá í hálft ár

Petr Cech verður frá að minnsta kosti út þetta ár
Petr Cech verður frá að minnsta kosti út þetta ár NordicPhotos/GettyImages

Tékkneski landsliðsmarkvörðurinn Petr Cech hjá Chelsea gæti orðið frá keppni í allt að hálft ár að mati lækna sem framkvæmdu aðgerð á höfuðkúpubroti hans um helgina. Stephen Hunt, leikmaður Reading, hefur sent Cech skriflega afsökunarbeiðni fyrir að valda meiðslunum og stjóri Bolton hefur boðist til að lána Chelsea markvörð.

"Ég fullyrði að það var alls ekki ásetningur minn að meiða Cech," sagði í yfirlýsingu frá Stephen Hunt, leikmanni Reading. "Mér þykir afar leitt að hann hafi orðið fyrir þessum meiðslum og óska honum skjótum og fullum bata."

Sam Allardyce, stjóri Bolton, hefur boðist til að lána Chelsea einn af varamarkvörðum sínum á meðan staðan er svo slæm hjá Englandsmeisturunum, en Carlo Cudicini meiddist einnig gegn Reading og sýnt þykir að hann muni missa af leiknum mikilvæga gegn Barcelona í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.

Það er því útlit fyrir að Chelsea muni tefla fram þriðja markverði sínum, Hilario, gegn Barcelona - en Bolton hefur boðið Chelsea að fá til sín annað hvort fyrrum landsliðsmarkvörðinn Ian Walker eða Ali Al-Habsi, landsliðsmarkvörð Oman. Chelsea þyrfti engu að síður að sækja um undanþágu ef þetta ætti fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×