Erlent

Hefja tilraunir með kjarnorkusprengjur á næstunni

Stjórnvöld í Norður-Kóreu lýstu því yfir í morgun að þau ætluðu að hefja tilraunir með kjarnorkusprengjur á næstunni. Utanríkisráðherra Japans segir að áform nágranna sinna séu ófyrirgefanleg.

Í yfirlýsingu norðurkóresku ríkisstjórnarinnar segir að tilraunirnar verði gerðar á öruggum stað en ekki fylgdi sögunni hvenær þær fara fram. Þar segir að auki að Norður-Kórea muni aldrei nota kjarnorkuvopn að fyrra bragði heldur einungis til sjálfsvarnar og ríkisstjórnin muni hér eftir sem hingað til beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga og í heiminum öllum.

Taro Aso, utanríkisráðherra Japans, sagði í morgun að áætlanir stjórnvalda í Pjongjang væru algerlega ófyrirgefanlegar og væri þeim haldið til streitu myndu Japanar áskilja sér rétt til að bregðast við af hörku. Nokkrir mánuðir eru síðan Norður-Kóreumenn gerðu tilraunir með langdrægar eldflaugar og vöktu þær að vonum talsverða úlfúð.

Sérfræðingar telja að í dag eigi Norður-Kóreumenn nægilega mikið af kjarnorkueldsneyti til að búa til sex til átta kjarnorkusprengjur en þá skorti að líkindum ennþá getu til að hlaða eldflaugar með þeim. Því er talið líklegt að útspil þeirra í dag sé liður í að knýja Bandaríkjamenn til beinna viðræðna við sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×