Innlent

Tveggja ára fangelsi fyrir að hafa banað manni

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Loft Jens Magnússon í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa verið valdur að dauða Ragnars Björnssonar á veitingastaðnum Ásláki í Mosfellsbæi í desember 2004.

Atvikið var með þeim hætti að Loftur Jens sló Ragnar hnefahögg í hálsinn með þeim afleiðingum að slagæð við hálshrygg rofnaði. Við þetta varð mikil blæðing inn í höfuðkúpu, sem leiddi til þess að maðurinn lést af völdum blæðingar á milli heila og innri heilahimna.

Í dómnun segir að fráleitt verði að telja að Loftur Jens hafi ætla að valda Ragnari meiri háttar líkamstjóni og því síður að bana honum. Ekkert hafi hins vegar komið fram sem réttlætt geti árás ákærða á Ragnar.

Að því virtu hve langt var liðið frá árásinni og hve óvægna umfjöllun ákærði hefði hlotið hjá einstökum fjölmiðlum, þrátt fyrir að sök hans teldist ósönnuð til þessa dags, þótti tveggja ára dómur hæfileg refsing. Loftur Jens var jafnframt dæmdur til að greiða ekkju og börnum Ragnars ríflega tólf milljónir króna í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×