Erlent

Ekki hafðir með í ráðum

Stjórnarhermaður borinn til grafar á Srí Lanka.
Stjórnarhermaður borinn til grafar á Srí Lanka. MYND/AP

Stjórnvöld á Srí Lanka neita því að hafa samþykkt í gær að taka skilyrðislaust þátt í friðarviðræðum við uppreisnarmenn Tamíltígra í landinu. Fulltrúar þeirra eru þó tilbúnir til viðræðna hætti tígrarnir árásum.

Fundað var um friðarferlið í Srí Lanka í Brussel í Belgíu í gær. Fulltrúar Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Japans og Noregs sátu fundinn. Eftir fundinn staðfestu fulltrúar Japans að bæði stjórnvöld á Srí Lanka og Tamíltígrar hefðu samþykkt að setjast niður til friðarviðræðna án nokkurra skilyrða. Rætt var um að þær viðræður myndu hefjast í október. Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi norræna vopnahléseftirlitsins, sagði þetta þýðingarmikið skref í átt til friðar.

Tamíltígrarnir drógu sig út úr friðarviðræðum í apríl á þessu ári og til átaka kom milli fylkinganna í júlí og hafa þau kostað fjölmörg mannslíf. Vopnahlé hefur verið í gildi í landinu síðan árið 2002.

Það var svo í morgun sem stjórnvöld á Srí Lanka sendu frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að þau hefðu ekki samþykkt að taka skilyrðislaust þátt í þessum viðræðunum og að þau hefðu ekki verið höfð með í ráðum í gær. Fulltrúar stjórnvalda lögðu þó áherlsu á ráðamenn hefðu skuldbundið sig til að taka þátt í friðarviðræðum með Tamíltígrunum svo fremi að hinir síðarnefndu samþykktu að hætta öllum árásum þannig að hægt verði að sannreyna það.

Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum segir að þá verði hægt að semja um hvenæar og hvar yrði sest að samningaborðinu og það ákveðið í samvinnu við fulltrúa vopnahléseftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×