Erlent

Blair ræðir ekki við Haniyeh

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, eru báðir tilbúnir til viðræðna um friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs. Tony Blair, forsætisráðherra, hefur á tæpum sólarhring fundað með helstu leiðtogum Ísraela og Palestínumanna og reynt að miðla málum.

Blair hefur ekki legið á liði sínu frá því hann lagði af stað frá Lundúnum til Jerúsalems í gær. Hann átti þegar fund með Ehud Olmert, forsætisráðherra, í gærkvöldi þar sem þeir ræddu friðarferlið, ástandið í Líbanon og kjarnorkudeilu vesturveldanna við Írana.

Á blaðamannafundi sagði Blair mikilvægt að koma friðarferlinu aftur í gang. Olmert tók í sama streng og sagðist tilbúinn til viðræðna við Abbas forseta. Mestu skipti þó að tryggja lausn Gilads Shalits, hermannsins sem er enn í haldi herskárra Palestínumanna á Gaza-svæðinu.

Í morgun átti svo Blair fundi með Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, annars vegar og Amir Peretz, varnarmálaráðherra, hins vegar. Síðan hitti Blair fjölskyldur Shalits og tveggja annarra hermanna sem eru í haldi Hizbollah-skæruliða í Líbanon.

Blair hélt því næst til fundar með Abbas í Ramallah á Vesturbakkanum. Á blaðamannafundi sagði Blair rétt að þær þjóðir heims sem hefðu skorið á samskipti við heimastjórn Palestínumanna tækju aftur upp samstarf við hana ef það tækist að mynda eins konar þjóðstjórn Hamas-liða og Fatah-hreyfingar Abbas. Forsetinn sagðist tilbúinn til viðræðna við Olmert.

Heimsókn Blairs til Ramallah var mótmælt og voru Bretar meðal þeirra sem tóku þátt. Þeir sögðu ríkisstjórn Blair ekki styðja Palestínumenn nægilega vel.

Síðdegis í dag átti svo Blair fund með Shimon Peres, varaforsætisráðherra Ísraels. Blair mun ekki funda með Ismail Haniyeh, forsætisráðherra í heimastjórn Hamas-liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×