Erlent

Grunaðir um undirbúning hryðjuverka

Belgíska lögreglan hefur handtekið ellefu hermenn sem eru grunaðir um að hafa safnað vopnum til hryðjuverkaárásar. Hermennirnir eru sagðir hallir undir nýnasista.

Talsmaður saksóknara í Belgíu segir að töluvert af fullkomnum vopnum og sprengiefni hafi fundist þeegar áhlaup voru gerð á húsakynni á vegum hersins og kaffihús víða um Belgíu. Sautján eru í haldi lögreglunnar í Flanders vegna málsins, þar af hermennirnir ellefu. Líklegt er að þeir sem teknir voru höndum verði ákærðir fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum, að hafa ólögleg vopn undir höndum, kynþáttafordóma og að hafa neitað því að Helför gyðinga hafi átt sér stað. Hundrað lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum í gær en rannsókn á málinu hefur staðið í tvö ár og á þeim tíma hafa belgískir lögreglumenn laumað sér inn í öfgasinnuð samtök hægrimanna í landinu.

Mennirnir voru allir handteknir í hollenskumælandi hluta Belgíu þar sem flokkur sem berst gegn innflytjendum hefur náð fótfestu.

Mennirnir munu allir hafa tilheyrt klofningshóp úr samtökum sem kenna sig við blóð, ættjörð, heiður og tryggð. Leiðtogi hópsins er hermaður sem er sagður hafa ætlað að gera hryðjuverkaáætlanir sínar að veruleika.

Höfuðpaurinn er sagður hafa varið tveimur og hálfu ári í að afla liðsstyrks og skipuleggja æfingar með vopn á svæði hersins án vitundar yfirvalda.

Alvarlegum glæpum sem tengdir eru kynþáttafordómum hefur fjölgað í Belgíu síðustu mánuði. Það var í maí sem átján ára félagi í öfgasamtökum var ákærður fyrir að hafa myrt hvítt barn og hörundsdökka barnfóstur þess í Antwerpen, annarri stærstu borg Flanders.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×