Erlent

Undirbýr kæru vegna handtöku meintra hryðjuverkamanna

Íslamskur trúarleiðtogi í Danmörku segir dönsku lögregluna ekki hafa neinar sannanir gegn meintum hryðjuverkamönnum sem hún handtók í Vollsmose fyrr í vikunni. Hann undirbýr kæru á hendur lögreglunni.

Ímaminn Abu Hassan í Vollsmose segir lögregluna ekki hafa neinar sannanir í málinu og að allt sé þetta gert til að þóknast Bandaríkjunum. Hann ætlar að safna saman fjölskyldum hinna grunuðu í dag og undirbúa kæru á hendur lögreglunni fyrir framgöngu lögreglumanna við handtökuna. Þetta kemur fram í Jótlandspóstinum í dag. Hassan segir ljóst að allir íbúar í Vollsmose ættu að mótmæla verði mennirnir dæmdir til fangelsisvistar án sönnunargagna.

Hassan ætlar að mæta ásamt ættingjum hinna handteknu hjá lögreglu síðar í dag til að leggja fram kæru. Hann segir ótrúlegt að hugsa til þess að lögregla hafi ruðst inn á mennina, veifandi skotvopnum og ógnað börnum með þeim.

Jótlandspósturinn hefur eftir ýmsum leiðandi lögspekingum Danmerkur að þeir dragi í efa að lögreglan hafi næg sönnunargögn fyrst lögreglunni tókst aðeins að sannfæra dómara um að úrskurða tvo hinna níu sem handteknir voru í gæsluvarðhald í fjórar vikur. Tveir voru látnir lausir fljótlega eftir að þeir voru handteknir. Dómari mun svo í dag skera endanlega úr um það hvort þriggja daga gæsluvarðhald hinna fimm sem eftir eru verður framlengt um mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×