Erlent

Lægir ekki öldurnar í Verkamannaflokknum

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að afsala sér ráðherraembætti og leiðtogahlutverki í Verkamannaflokknum innan árs en vill ekki tímasetja brotthvarf sitt nánar að sinni. Stjórnmálaskýrendur segja yfirlýsingu Blairs ekki lægja öldurnar í flokknum.

Yfirlýsingu Blairs var beðið í ofvæni. Fyrst baðst Blair afsökunar fyrir hönd Verkamannaflokksins á því fjölmiðlafári sem hefði orðið síðustu daga í kringum væntanlega afsögn hans. Bresku blöðin hafa sum hver tímasett brotthvarf hans og því var þess að vænta að Blair myndi taka af allan vafa í dag.

Hann sagðist hins vegar ekki ætla að tímasetja brotthvarf sitt en næsta flokksþing Verkamannaflokksins yrði hans síðasta sem leiðtogi flokksins og einnig næsta þing samtaka verkalýðsfélaga. Þetta þýðir að Blair lætur af embætti bæði sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra einhvern tíman á næstu tólf mánuðum.

Ætla má að andstæðingar Blairs í flokknum sætti sig ekki við þetta svar forsætisráðherrans og segja stjórnmálaskýrendur að hann hafi í raun misst stjórn á eigin framtíð í stjórnmálum síðustu daga. Búist er við að áfram verði gerð krafa um nákvæmari tímasetningar og jafnvel talið að háttsettir þingmenn og ráðherrar íhugi afsögn til að þrýsta enn frekar á Blair.

Gordon Brown, fjármálaráðherra, og líklegasti arftaki Blairs sagði í morgun að hann vildi að Blair tæki ákvörðun um brotthvarf á eigin forsendum. Ekki er þó fullvíst að hann eigi auðvelda leið í leiðtogasætið og ætla má að fleiri vilji í brúnna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×