Erlent

Bush viðurkennir leynifangelsi

George Bush Bandaríkjaforseti viðurkenndi í fyrsta skipti í gær að leynifangelsi hefðu verið rekin á vegum bandarísku leyniþjónustunnar. Hann sagði yfirheyrsluaðferðir leyniþjónustunnar mikilvægar en neitaði að fangar hafi verið pyntaðir.

Bush sagði þetta í sjónvarpsávarpi til bandarísku þjóðarinnar í gærkvöld fyrir framan aðstandendur fórnarlamba hryðjuverkaárásanna 11. september.

Hann sagði að fjórtán hryðjuverkamenn úr æðstu stöðum hefðu verið fluttir úr leynifangelsunum í fangabúðir Bandaríkjamanna á Kúbu en enginn fangi væri lengur í leynifangelsunum.

Bush sagði umdeildar yfirheyrsluaðferðir CIA mikilvægar og þær hjálpuðu til við að bjarga mannslífum og bætti við að þeir sem gefið gætu bestu vísbendingarnar um hvar hryðjuverkamenn dveldust væru hryðjuverkamennirnir sjálfir. Hann þvertók þó fyrir að pyntingar hafi verið notaðar fyrr eða síðar af Bandaríkjamönnum og bætti því við að réttindi allra fanga væru vernduð undir ákvæðum Genfar-sáttmálans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×