Erlent

Þjarmað að Blair

Sjö þingmenn breska Verkamannaflokksins hafa sagt af sér til að mótmæla því að Tony Blair forsætisráðherra skuli ekki hafa tímasett brotthvarf sitt úr embætti. Blair segir að þeir séu svikarar.

Það var breska götublaðið The Sun sem greindi frá því í morgun að Tony Blair myndi hætta sem formaður Verkamannaflokksins í lok maí á næsta ári og segja af sér forsætisráðherraembætti tæpum tveimur mánuðum síða eða tuttugasta og sjötta júlí. Þá yrði búið að velja nýjan leiðtoga flokksins og arftaka hans í Downingstræti tíu.

Bresk blöð hafa fjallað um veika stöðu Blair síðustu daga og í gær var greint frá því að fjölmargir þingmenn verkamannaflokksins hefðu þrýst á að hann tímasetti margboðað brotthvarf sitt úr embætti.

Fyrir kosningarnar í fyrra var almennt talið að þar væri Blair að há síðustu kosningabaráttuna sína. Síðan þá hefur þess verið beðið að Blair dagsetji brotthvarf sitt en af því hefur ekki orðið enn sem komið er.

Fram til þessa hefur verið talið líklegt að Gordon Brown, fjármálaráðherra, taki við af Blair og í raun talað um að þeir hafi samið fyrir löngu um valdaskipti en það samkomulag hafi Blair síðan svikið.

Nú er hins vegar búist við að Brown fái keppni frá innanríkisráðherranum John Reid, Alan Johnson menntamálaráðherra eða David Miliband umhverfisráðherra um forystuhlutverkið. Skrifstofa forsætisráðherrans hefur ekki enn vísað fréttunum af afsögn Blairs á bug. Óánægja með Blair hefur vaxið innan Verkamannaflokksins síðustu misseri, meðal annars vegna gengis flokksins í skoðanakönnunum, en Blair hefur verið forsætisráðherra í ríflega níu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×