Erlent

Meðlimur ungliðahreyfingarinnar játar á sig tölvuinnbrotin

Frá Stokkhólmi
Frá Stokkhólmi MYND/Reuters

Sænski Sósíaldemókrataflokkurinn hefur kært Þjóðarflokkinn þar í landi fyrir umfangsmikla tölvuglæpi, eftir að upp komst að flokksmenn hinna síðarnefndu höfðu ítrekað brotist inn á lokað netsvæði sósíaldemókrata. Ungur meðlimur Þjóðarflokksins hefur viðurkennt sök sína í málinu.

Á meðal þeirra upplýsinga sem finna mátti á innra neti sósíaldemókrata var skipulag kosningabaráttu þeirra sem nú stendur sem hæst, en þingkosningar fara fram í Svíþjóð eftir tæpar tvær vikur. Það mun hafa vakið grunsemdir sósíaldemókratanna hversu vel Þjóðarflokkurinn svaraði kosningabaráttu þeirra en það var blaðamaður Dagens Industri sem kom upp um glæpinn. Að sögn ritara Þjóðarflokksins, Johan Jakobsson, liggur ekki fyrir hversu oft var brotist inn á vefsvæði andstæðinganna þeirra en segir að um þó nokkur tilvik sé að ræða, frá því í nóvember í fyrra fram í mars á þessu ári.

Tuttugu og fjögurra ára ungliði í sænska Þjóðarflokknum játaði á sig glæpinn í morgun og sögn Jakobsson hefur honum þegar verið vikið úr flokknum. Enginn forsvarsmanna ungliðahreyfingar Þjóðarflokksins vill tjá sig um málið, heldur vísa þeir á forystu flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×