Erlent

Skutu flugskeytum á bíl Reuters-fréttastofunnar

Ísraelsher skaut tveimur flugskeytum á brynvarinn bíl Reuters-fréttastofunnar í Gaza-borg í nótt. Fimm særðust, þar af tveir myndatökumenn. Herskár Hamas-liði féll í annarri árás Ísraela skammt frá.

Annað flugskeytið skall á bílnum skemmdist nokkuð. Tökumaður Reuters, sem var að mynda við bílinn, særðist auk fréttamanns á vegum palestínsks miðils.

Talsmaður Ísraelshers segir hermenn hafa leitað sprengiefnis sem grunur lék á að herskáir Palestínumenn hefðu komið fyrir á svæðinu. Bílll Reuters hefði ekki verið merktur og hermenn ekki gert sér grein fyrir því hvers konar bíl væri um að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá hermönnunum hafi honum verið eki með grunsamlegum hætti. Málið er í rannsókn.

Talsmaður samtaka fréttamanna á svæðinu segir um glæp að ræða. Bíll Reuters-fréttastofunnar var vel merktur bæði á ensku, arabísku og hebresku.

Fleiri árásir voru gerðar á Gaza-svæðinu í gærkvöld og í nótt og féll Hamas-liði í einni þeirra. Aðgerðir Ísraelshers á svæðinu hafa nú staðið í um tvo mánuði eða allt frá því herskáir Palestínumenn tóku ísraelska hermann í gíslingu tuttugasta og fimmta júní. Sá er enn í haldi mannræningja og ekkert vitað um afdrif hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×