Erlent

Óttinn við hryðjuverk í háloftunum eykst

Nú berast nær daglega fréttir af því að flugvélum sé beint á aðra lendingarstaði en þeim voru upphaflega ætlaðir vegna þess að ótti um yfirvofandi hryðjuverk hefur vaknað. Yfirleitt hafa farþegar þá í vangá tekið bannaða hluti með sér í handfarangri eða hegðun farþega talin grunsamleg. Óttinn við hryðjuverk í háloftunum truflaði ferðir sjö flugvéla í Bandaríkjunum bæði í innanlands- og millilandaflugi í gær.

Fréttir fyrr í mánuðinum um að tekist hefði að koma í veg fyrir hryðjuverk um borð í fjölda flugvéla á leið frá Bretlandi til Bandríkjanna hafa vakið ugg meðal almennings sem og starfsmanna í flugi.

Þessa dagana berast sífellt fréttir að hugsanlegri hættu um borð í flugvélum og var töluvert um slíkt í Bandaríkjunum í gær.

Flugvél American Airlines, sem var á leið frá Manchester á Englandi til Chicago, var beint á flugvöllinn í Bangor í Maine-ríki. Sú skýring var gefin að flugfreyja um borð væri veik. Farþegar sáu síðan mann leiddan frá borði í járnum. Talsmaður bandarísku alríkislögreglunnar segir engan hafa verið handtekinn en vildi ekki staðfesta hvort einhver væri í haldi. 167 farþegar og 12 manna áhöfn voru um borð í vélinni sem er af gerðinni Boeing 767.

Í Houston í Texa fannst dýnamít og kveikiþráður í farangri háskólanema sem var að koma frá Argentínu. Nóg var af sprengiefni þar til að granda vélinni. Maðurinn segist hafa tekið þetta með sér sem minjagripi eftir ferð sína um námur í Suður-Ameríku. Maðurinn verður að líkindum kærður og er í haldi yfirvalda í Houston.

Vél frá US Airways var beint til flugvallar í Oklahoma-borg eftir að áhöfn þurfti að yfirbuga farþega sem að sögn þeirra réðst á flugfreyju og hrinti henni. Maðurinn gengst nú undir geðrannsókn. Ekki liggur fyrir hvort hann verður kærður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×