Erlent

Kjarnorkuáætlun Írana ekki ógn við neinu ríki

Íransforseti segir kjarnorkuáætlun stjórnvalda þar í landi ekki ógn við nokkuð ríki í heiminum, þar með talið Ísrael. Forsetinn vígði í dag þungvatnsverksmiðju sem mun styðja við kjarnorkuframleiðslu í landinu. Íranar hafa frest til fimmtudags til að hætta auðgun úrans, ellegar grípa vesturveldin til efnahagsþvingana eða beita Írana jafnvel valdi.

Vesturveldin hafa gefið Írönum frest fram á fimmtudag í næstu viku til að hætta auðgun úrans. Ef þeir geri það ekki verði gripið til efnahagsþvingana og hafa sum ríki, þar á meðal Bandaríkin, ekki útilokað valdbeitingu. Íranar svöruðu í vikunni tilboði vesturveldanna um ýmsar ívilnaniar gegn því að hætta auðgun úrans. Svarið var ófullnægjandi að mati Bandaríkjanna og fleiri ríkja en Íranar hafa boðist til að taka þátt í alvarlegum viðræðum í deilunni en ætla ekki að hætta auðgun úrans áður en af þeim verður líkt og Bandaríkjamenn gera kröfu um. Íranar segja frestinn sem var gefinn ólöglegan.

Það var svo í morgun sem Ahmadinejad, Íransforseti, vígði þungvatnsverksmiðju í Araka, suð-vestur af höfuðborginni Teheran. Vatn þaðan verður notað til að kæla kjarnaofn sem er í byggingu á svæðinu. Þar verður plútón framleitt sem hægt er að nota til framleiðslu kjarnorkuvopna. Bandaríkjamenn segja Írana ætla sér að framleiða slík vopn en Íranar hafa fullyrt að þeir ætli að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi, aðallega til orkuframleiðslu.

Eftir að Íransforseti vígði verksmiðjuna í morgun sagði hann kjarnorkuáætlun stjórnvalda í Teheran ekki ógna nokkru ríki í heiminum.

Alþjóða kjarnorkumálastofnunin mun skila af sér skýrslu um ástand mála í Íran um miðjan næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×