Innlent

VG vill að Alþingi komi saman

MYND/Vilhelm

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs krefst þess að bæði fyrrverandi og núverandi iðnaðarráðherrar geri hreint fyrir sínum dyrum og að Alþingi verði kallað saman ef með þarf vegna nýframkominna upplýsinga varðandi áhættu vegna Kárahnjúkavirkjunarþeirra. Þá hefur þingflokkur Frjálslynda flokksins farið fram á að iðnaðarnefnd alþingis verði kölluð saman í upphafi næstu viku til að fjalla um málið.

Þingflokkur VG segir í yfirlýsingu sinni að nú liggi fyrir að greinargerð Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings, um Kárahnjúkavirkjun, frá í febrúar 2002, hafi verið haldið leyndri fyrir alþingismönnum á þeim tíma sem ákvörðun um framkvæmdina var til meðferðar á Alþingi. Orkumálastjóri og iðnaðarráðherra virðast hafa ákveðið að greinargerðin skyldi fara leynt. Ekki verði annað séð en stjórnvöld hafi þannig vísvitandi leynt Alþingi mikilvægum upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir við Kárahnjúka. Greinargerðin varði þætti sem þingmenn ræddu ítarlega á þessum tíma, jafnt rekstrarhagkvæmni framkvæmdarinnar sem og grafalvarleg öryggisatriði virkjunarinnar.

"Það er afdráttarlaus krafa þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að bæði fyrrverandi og núverandi iðnaðarráðherrar geri hreint fyrir sínum dyrum og að Alþingi verði kallað saman ef með þarf," segir í yfirlýsingu VG.

Þá hefur þingflokkur Frjálslynda flokksins farið fram á að iðnaðarnefnd verði kölluð saman í upphafi næstu viku til að fjalla um nýframkomnar upplýsingar varðandi áhættu vegna Kárahnjúkavirkjunar, þar sem jarðfræðilegar aðstæður á svæðinu virðast ekki vera jafn traustar og fyrri upplýsingar til Alþingis höfðu gefið til kynna.

"Iðnaðarnefnd fái á sinn fund óháða sérfræðinga til að meta þessar upplýsingar og hvort fresta beri fyllingu Hálslóns þar til fullnaðarúttekt hefur verið framkvæmd á svæðinu," segir í yfirlýsingu Frjálslynda flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×