Erlent

Hizbollah-samtökin ætla ekki að afvopnast

Hizbollah-samtökin ætla sér ekki að afvopnast heldur hyggjast þau einungis setja vopn sín í geymslur í bili. Ráðamenn fjölmargra þjóða vinna nú hörðum höndum að því að koma saman friðargæsluliði til að senda til Líbanons.



Utanríkisráðherrar nokkurra ríkja komu til Beirút í morgun til að ræða samsetningu 13.000 manna friðargæsluliðs Sameinuðu þjóðanna sem fyrirhugað er að senda til Líbanons á næstunni til að tryggja að átök brjótist ekki út á ný. Frakkar munu að líkindum leggja til stærstan hluta liðsins enda hafa tengsl þeirra við Líbanon lengi verið náin en einnig hafa ríki á borð við Finnland, Malasíu og Marokkó boðist til að senda menn á vettvang. Philippe Douste-Blazy, utanríkisráðherra Frakklands, hvatti líbönsku ríkisstjórnina í dag til að hraða flutningum á 15.000 manna liði sínu til suðurhluta landsins svo Ísraelsher geti tygjað sig aftur yfir landamærin. Hizbollah-samtökin segjast staðráðin í að sýna friðargæslum Sameinuðu þjóðanna og Líbana samvinnu og fagna auknum liðsstyrk í Suður-Líbanon. Það er talið til marks um að samtökin séu alls ekki á þeim buxum að afvopnast, eins og fyrri ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kveða þó á um, heldur ætli þau í besta falli að setja vígbúnað sinn í geymslur. Íbúar átakanasvæðanna streyma nú úr öllum áttum aftur til baka. Sumir hafa þó einungis fundið rústir þar sem áður stóðu heimili þeirra og því er ekki um annað að velja en að búa í tjöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×