Erlent

Fjórum erlendum starfsmönnum rænt í Nígeríu

Fjórum erlendum starfsmönnum olíufélags í Nígeríu var sleppt úr haldi mannræningja í dag. Þeim var rænt af skipi fyrir tæpri viku. Tveir þeirra eru frá Noregi og tveir frá Úkraínu.



Mennirnir voru um borð í birgðaskipi sem lá við akkeri rétt undan strönd landsins þegar mannræningjarnir réðust um borð og rændu fjórmenningunum. Í gær var fjórum öðrum rænt og fimm sleppt. Mannræningjar hafa fimm sinnum tekið hópa starfsmanna olíufélaganna í gíslingu síðasta hálfa mánuðinn. Lögregla hefur þó ekki handtekið neinn. Mikla olíu er að finna á skilgreindum svæðum í landinu en Nígería er stærsti olíuútflytjandi Afríku og sjötti stærsti olíuútflytjandi í heimi.

Herskáir hópar innfæddra hafa hert árásir sínar á síðustu mánuðum en þeir sækjast eftir meiri stjórn yfir olíuauðlindum í landinu. Vegna árásanna hefur framleiðsla í landinu hins vegar minnkað um fjórðung.

Heimildarmenn hjá olíufélögum sem starfa í Nígeríu segja mannrán nú arðvænleg fyrir glæpamenn sem eigi auðvelt með að afla vopna og hafi janfvel komið á tengslum við nígeríska stjórnmálamenn. Olusegun Obasanjo, forseti Nígeríu, segir ekki hægt að sætta sig við þetta ástand og hefur því fyrirskipað her landsins að svara af fullri hörku ef þeir komist í tæri við mannræningja. Yfirvöld segja ómögulegt að segja til um hve margir séu í haldi mannræningja nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×