Erlent

Neyðarástand vegna hitabylgju

Íbúi í New York reynir að kæla sig í forsælu.
Íbúi í New York reynir að kæla sig í forsælu. MYND/AP

Neyðarástand hefur skapast í New York-borg í Bandaríkjunum þar sem hiti hefur farið upp í tæp fjörutíu stig. Þegar rakinn bætist við er erfitt að lifa. Sérstakar kælingarmiðstöðvar víðsvegar um borgina eru fjölsóttar þessa dagana.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í borginni þar sem hitabylgja hefur bakað íbúa síðustu daga og heldur því áfram. Michael Bloomberg, borgarstjóri, hefur hvatt íbúa til að til að spara rafmagn til að forðast það að rafmagnslaust verði á stórum svæðum líkt og í síðasta mánuði. Búið er að slökkva á fljóðljósum í görðum, við minnismerki, skilti og ýmsar byggingar. Á fjórða hundruð miðstöðvar þar sem fólk getur kælt sig hafa verið settar á laggirnar víða um borgina auk þess sem almenningssundlaugar eru opnar lengur.

Hitastigið hefur einnig hækkað í Philadelphiu og Washington en hitabylgjan hefur færst frá Kaliforníu. Þar hefur hitinn lækkað en var mikill í rúman hálfan mánuð. Rafmang fór þar af fjölmörgum svæðum auk þess sem hundrað þrjátíu og sex dauðsföll í ríkinu er hægt að rekja beint til hitabylgjunnar.

Áætlað er að hitinn í New York, Philadelphiu og Washington verði um þrjátíu og átta gráður næsta sólahring. Ofan á það er raki mikill. Ekki hefur verið jafn heitt í New York síðan í júlí 1999. Óttast er að fjölmargir, aðallega eldri borgarar og hjartveikir, liggi í valnum þegar hitinn lækkar á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×