Erlent

Læra að beita kylfum, ekki byssum

Tugir lögreglumanna í Afganistan útskrifuðust í dag úr skóla fjölþjóðlegu friðargæsluliðanna í Kabúl, en í skólanum lærðu þeir hvernig ber að kveða niður róstur án þess að beita byssum. Afgönsku lögreglumennirnir lærðu að beita kylfum og skjöldum gegn mótmælendum - en hingað til hefur þótt duga að nota byssurnar. Eitt af markmiðum alþjóðaliðsins í Afganistan er að þjálfa lögreglu og her landsins, þannig að menn beiti því afli sem hæfir í hvert sinn, líkt og leitast er við að gera, til dæmis í Evrópu. Yfirmaður lögreglunnar í Kabúl var ánægður með þjálfunina. Ekki eru nema tveir mánuðir síðan hrikalega tókst til með að lægja öldurnar á götum Kabúl, eftir að bandarískir hermenn urðu valdir að slæmu bílslysi. Þá kom Afganski herinn á vettvang og beitti hríðskotabyssum óspart þannig að vont ástand varð enn verra. Talsmenn fjölþjóðahersins vonast til að það gerist ekki aftur. Enn er stríðsástand í nokkrum héruðum Afganistans og veruleg andúðar er farið að gæta gegn veru fjölþjóðahersins í landinu, þannig að hinir nýútskrifuðu lögreglumenn kunna að fá næg tækifæri til að færa sér nýfengna þjálfun í nyt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×