Erlent

Grænt ljós á aðgerðir í Líbanon

MYND/AP

Ísraelar segja aðeins hægt að túlka niðurstöðu fundar í Róm í gær sem grænt ljós á árásir sínar á Líbanon. Ekki tókst samkomulag um tafarlaust vopnahlé á fundinum. Mannréttindasamtök saka Ísraela um að nota klasasprengjur í árásum á þéttbýl svæði í Líbanon.

Það voru mannréttindasamtökin Human Rights Watch sem komu fram með þessar ásakanir fyrr í vikunni. Fulltrúar þeirra segja Ísraelsher skjóta klasasprengjum í stórskotaliðsárásum. Spengjurnar dreifa mörgum minnisprengjum eftir að þær hafa skollið til jarðar. Samtökin segja slíkar sprengjur hafa verið notaðar í árásum á þorpið Blida í Suður-Líbanon fyrir rúmri viku þar sem einn óbreyttur borgari féll og minnst tólf særðust, þar af sjö börn. Starfsmenn samtakanna munu hafa orðið varir við sprengjur af þessari gerð í vopnabirgðum stórskotaliðsmanna í Ísarelsher við landamærin að Líbanon. Ísarelar svara þessum fullyrðinum þannig þeir noti aðeins vopn sem ekki eru bönnuð með alþjóðalögum. Mörg ríki telja rétt að banna notkun á klasasprengjum en það hefur þó ekki fengist í gegn.

Loft- og stórskotaliðsárásir Ísraelshers í Suður-Líbanon héldu áfram í dag. Níu hermenn féllu í átökum í bænum Bint Jbeil í gær og er það mesta mannfall á einum degi úr röðum Ísraela frá því átökin hófust fyrir rúmum hálfum mánuði. Yfir 430 Líbanar og 50 Ísarelar hafa fallið á þeim tíma.

Haim Ramon, dómsmálaráðherra Ísraels, sagði í morgun að sigur Hizbollah yrði sigur fyrir hryðjuverkamenn um allan heim. Til að forða mannfalli meðal Ísarelskra hermanna yrði að jafna þorp nálægt landamærunum að Ísrael við jörðu. Íbúar þar hefðu fengið nægan tíma til að hafa sig á brott og því væru aðeins stuðningsmenn Hizbollah eftir þar nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×