Sport

Seattle-liðin seld

Clay Bennett og Howard Schultz ganga hér frá samningum
Clay Bennett og Howard Schultz ganga hér frá samningum NordicPhotos/GettyImages

Hópur fjárfesta frá Oklahoma City hefur fest kaup á NBA-liði Seattle Supersonics og kvennaliðinu Seattle Storm. Nýju eigendunum hefur verið gefinn eins árs frestur til að ná samningum um endurbætur eða byggingu nýrrar íþróttahallar í Seattle, ella verði liðin flutt frá borginni.

Fyrrum eigendur Supersonics, með eiganda Starbucks-keðjunnar Howard Schultz í fararbroddi, hafa í tvö ár staðið í samningaviðræðum við borgaryfirvöld um endurbætur á húsakosti félagsins en án árangurs. Kaupverðið var 350 milljónir dollara og er Supersonics elsta atvinnumannalið borgarinnar eftir að hafa verið þar í fjóra áratugi.

Nýr aðaleigandi Seattle Supersonics er viðskiptajöfurinn Clay Bennett frá Oklahoma City, en hann er einmitt lykilmaðurinn á bak við flutning New Orleans Hornets-liðsins til borgarinnar í kjölfar fellibylsins Katrínar á sínum tíma.

Mikið er ritað um það í Bandaríkjunum þessa dagana að í kjölfar kaupa Bennett á Seattle liðinu, sé nokkuð víst að Oklahoma-borg muni hýsa NBA lið í framtíðinni í ljósi þess að aðstandendur og stuðningsmenn New Orleans og Seattle hafa dregið lappirnar í flestum skilningi undanfarin ár - á meðan áhuginn grasserar í Oklahoma sem aldrei fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×