Erlent

Jarðskjálfinn á Jövu

Jarðskjálftar eru tíðir í og við Indónesíu enda gengur þar Indó-Ástralíuflekinn undir Evrasíuflekann. Skjálftar sem verða undir hafsbotninum eru hins vegar þeir hættulegustu því þá getur myndast flóðbylgja á borð við þá sem grandaði 230.000 manns á öðrum degi jóla 2004.

Stærð skjálftans í gær var 7,7 en upptök hans voru skammt suður af indónesísku eynni Jövu. Skömmu eftir að jörðin skókst skall 2 metra hár ölduveggur á suðurhluta Jövu. Bátar og bílar þeyttust upp nærliggjandi tré og hús brotnuðu eins og eldspýtur. Sumum tókst að forða sér undan sjónum en ekki öllum. 341 lík hefur fundist og yfir 200 manns er ennþá saknað, þar á meðal nokkurra erlendra ferðamanna sem ætluð sér að eiga náðuga daga í sólinni.

54.000 manns eru sagðir hafa misst heimili sín á Jövu en tjónið virðist að mestu bundið við þær slóðir. Í kjölfar flóðbylgjunnar miklu var mikið rætt um nauðsyn þess að koma á viðvörunarkerfi vegna flóðbylgna svo harmleikurinn þá endurtæki sig aldrei. Nú hefur hins vegar komið í ljós að nánast ekkert hefur verið gert í þeim efnum. Ekki er hægt að slá því föstu að þeir sem létust í flóðbylgjunni í gær væru enn á lífi ef slíkur búnaður væri fyrir hendi en vísast hefði hann frekar orðið til gagns en tjóns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×