Sport

Mike James til Minnesota

Mike James var einn af þeim leikmönnum sem tóku hvað mestum framförum í NBA á síðasta vetri.
Mike James var einn af þeim leikmönnum sem tóku hvað mestum framförum í NBA á síðasta vetri. NordicPhotos/GettyImages

Leikstjórnandinn Mike James skrifaði í gærkvöld undir samning við lið Minnesota Timberwolves í NBA deildinni, en James var með lausa samninga hjá Kanadaliði Toronto Raptors. James þótti minni spámaður í deildinni allt þar til í fyrravetur, þegar hann sprakk út með Toronto og skoraði yfir 20 stig að meðaltali í leik og var á meðal efstu manna í deildinni í 3ja stiga skotnýtingu.

James var leyft að fara frá Toronto eftir að liðið fékk til sín leikstjórnandann TJ Ford frá Milwaukee á dögunum, en ljóst er að James verður ákaft fagnað í herbúðuð Minnesota. Þar á bæ var leikstjórnandastaðan veikasti hlekkur liðsins í fyrra, þar sem meiðslakálfurinn Troy Hudson og hinn óstöðugi Marco Jaric skiptu með sér verkum. Það var fyrirliði Minnesota, Kevin Garnett, sem gulltryggði það að James skrifaði undir að lokum - því hann hringdi persónulega í leikstjórnandann og útskýrði fyrir honum hve sárt liðið þyrfti á honum að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×