Erlent

Grimmilegum hefndaraðgerðum hótað

Gilad Shalit, ungi hermaðurinn sem var rænt.
Gilad Shalit, ungi hermaðurinn sem var rænt. MYND/AP

Spenna hefur magnast við landamæri að Gaza-svæðinu síðan ungum ísraelskum hermenni var rænt þar í árás herskárra Palestínumanna á varðstöð Ísraelshers á svæðinu í gærmorgun. Hermenn streyma nú að landamærunum og með þeim vopn, skriðdrekar og annar búnaður. Ísraelar hóta árásum verði hermaðurinn ekki látinn laus.

Átökin í gær eru þau verstu milli Palestínumanna og Ísraela um nokkurt skeið. Árásarmennirnir, sjö eða átta talsins, skriðu í gegnum þrjú hundruð metra göng sem voru grafin undir landamæragirðinguna við Kerem Shalom. Þar réðust þeir til atlögu við hermenn á vakt vopnaðir skammbyssum og spregjum. Tveir hermenn og jafn margir herskáir Palestínumenn féllu í átökunum.

Árásarmennirnir rændu einum hermenni, hinum nítján ára gamla Gilad Shalit. Vopnaður armur Hamas-samtakanna og önnur herská samtök hafa lýst árásinni á hendur sér. Nokkrum klukkustundum eftir árásina var tugum ísraelskra skriðdreka komið fyrir á Gaza og og hefur liðssafnaður á svæðinu haldið áfram í morgun.

Ekki er vitað með vissu hvort hermaðurinn ungi er lífs eða liðinn en Ísraelsher telur hann þó enn á lífi en líkast til særðan. Ráðamenn segja heimastjórn Hamas- liða bera ábyrgð á því að honum verið skilað heilu og höldnum.

Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur hótað grimmilegum hefndaraðgerðum ef svo verði ekki en stjórnvöld í Jerúsalem grípa ekki til harkalegra aðgerða fyrr en allt hefur verið reynt til að tryggja lausn Shalits.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, og Ismail Haniyeh, forsætisráðherra, hittust á neyðarfundi um málið síðdegis í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×