Viðskipti innlent

Aflaverðmæti fiskiskipta 18,5 milljarðar

Afli í skipi.
Afli í skipi. Mynd/Jón Sigurður
Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 18,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er 1,9 milljörðum króna minna aflaverðmæti en á sama tíma fyrir ári og nemur samdrátturinn 9 prósentum, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands.

Að sögn Hagstofunnar var aflaverðmæti botnfisks 14,4 milljarðar króna sem er 2,8 prósenta aukning á milli ára. Þá nam aflaverðmæti þorsks 8,4 milljörðum en það er 2,1 prósents samdráttur frá síðasta ári. Aflaverðmæti ýsu jókst um 9,7 prósent á milli ára og nam verðmætið 2,8 milljörðum króna.

Aflaverðmæti ufsaaflans nam hins vegar 700 milljónum króna og er það 20 prósenta aukning á milli ára.

Mest af aflanum var tekið til vinnslu á Suðurnesjum. Verðmæti afla sem þar var unnin nam 3,6 milljörðum króna en það er 9,9 prósenta samdráttur á milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu var unnið úr afla að verðmæti 3,5 milljarðar króna og er það verðmætaaukning um 13 prósent frá sama tíma fyrir ári. Aukning vinnslunnar var hins vegar hlutfallslega mest á á Vesturlandi eða um 15 prósent. Hins vegar dró mest úr verðmæti afla unnum á Norðurlandi eystra eða um 32 prósent, að sögn Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×