Innlent

Eiður skrifar undir samning við Barcelona

MYND/Vísir

Eiður Smári Guðjohnsen skrifar í dag undir fjögurra ára samning við Evrópumeistara Barcelona. Fréttamannafundur vegna málsins verður klukkan þrjú.

Evrópumeistarar Barcelona tilkynntu á heimasíðu sinni á áttunda tímanum í morgun að félagið hefði samið við Chelsea um kaupin á Eiði Smára Guðjohnsen. Kaupverðið er 1100 milljónir króna. Eiður Smári er þegar farinn í fjögurra klukkustunda læknisskoðun sem lýkur á hádegi og í framhaldi af því mun hann hitta þjálfara Barcelona, Frank Rijkarrd og stjórn félagsins og skrifa undir fjögurra ára samning.

Að sögn Eggerts Skúlasonar, talsmanns Eiðs Smára, fær hann væntanlega búning númer 7 sem Henrik Larsson var með á síðustu leiktíð. Eggert segir að það hafi alltaf verið draumur Eiðs Smára að leika með Barcelona eða Real Madrid og nú hafi sá draumur ræst. Eiður Smári lék í 6 ár með Chelsea og lék 263 leiki og varð tvívegis Englandsmeistari. Barcelona varð Evrópumeistari í vor eftir sigur á Arsenal í úrslitaleik og er eitt stærsta félagslið heims og þetta er því mikil viðurkenning fyrir íslenska landsliðsfyrirliðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×