Innlent

Meirihlutinn hélt óvænt velli

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði.
Meirihlutinn hélt á Ísafirði, þvert á það sem skoðanakannanir höfðu gefið ástæðu til að ætla. Bæjarstjórinn og oddviti Sjálfstæðismanna vill halda áfram samstarfinu við Framsóknarflokkinn undir sinni forystu.

Sjálfstæðismenn á Ísafirði voru sigurreifur þegar fyrstu tölur birtust. Allar skoðanakannanir gáfu til kynna að meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna myndi falla í kosningunum og að Í-listi Samfylkingar, Frjálslynda og Vinstri-grænna kæmist til valda. Þegar það rættist ekki var óspart fagnað í herbúðum Sjálfstæðismanna. Vonbrigðin urðu hins vegar all nokkur í herbúðum Í-listafólks sem hafði gert sér vonir um að ná meirihluta í bæjarstjórn.

Framsóknarflokkurinn fékk tæp sextán prósent atkvæða og tapaði einum bæjarfulltrúa. Sjálfstæðismenn juku fylgi sitt um fimmtung og halda sínum fjórum bæjarfulltrúum. Í-listinn fékk tæp fjörutíu prósent atkvæða og fjóra af níu fulltrúum í bæjarstjórn.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði og oddviti Sjálfstæðismanna, var ánægður með niðurstöðuna. Hann sagði eðlilegt að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn ræddu saman um framhald á meirihlutasamstarfi þeirra í bæjarstjórn. Framsóknarmenn lýstu því yfir í kosningabaráttunni að þeir vildu ráða ópólitískan bæjarstjóra en Halldór segir það kröfu Sjálfstæðismanna að hann verði áfram bæjarstjóri á Ísafirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×