Sport

Skýr skilaboð hjá eiganda Cleveland

Stóra spurningin í NBA deildinni í sumar verður án efa sú hvort LeBron James skrifar undir framlengingu á samningi sínum við Cleveland Cavaliers
Stóra spurningin í NBA deildinni í sumar verður án efa sú hvort LeBron James skrifar undir framlengingu á samningi sínum við Cleveland Cavaliers NordicPhotos/GettyImages

Dan Gilbert, eigandi NBA-liðs Cleveland Cavaliers, hefur sent stuðningsmönnum liðsins skýr skilaboð fyrir framtíðina. Í gær keypti hann auglýsingar fyrir um 25.000 dollara í stærstu blöðunum í Ohio-fylki, þar sem hann þakkaði stuðningsmönnum liðsins fyrir árið og lét í það skína að nýr samningur við ofurstjörnuna LeBron James væri efst á forgangslista félagsins.

Þann 1. júlí næstkomandi, mun Cleveland bjóða James framlengingu á samningi hans upp á fimm ár og 75 milljónir dollara - samning sem næði til ársins 2012. Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð James, sem er einhver efnilegasti leikmaður sem komið hefur inn í deildina í áraraðir.

Hann bar lið Cleveland mjög óvænt á herðum sér alla leið í oddaleik í annari umferð úrslitakeppninnar og stóðst fyllilega þær óraunhæfu kröfur sem lagðar voru á herðar hans í fyrstu úrslitakeppni hans á ferlinum. James er aðeins 21 árs gamall og ef svo fer sem horfir, á hann líklega eftir að skrá nafn sitt í sögubækurnar með mönnum eins og Magic Johnson, Larry Bird og Michael Jordan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×