Innlent

Deilt um hvort bílastæðum fækki í miðborginni

Þróunarfélag miðborgarinnar mótmælir líkt og Laugavegssamtökin áformum Reykjavíkurborgar um að fækka bílastæðum við götur miðborgarinnar eins og kemur fram í samþykkt borgarstjórnar. Þessari túlkun á samþykktum mótmælir formaður umhverfisráðs.

Í tilkynningu frá þróunarfélaginu kemur fram að þau áform sem lýst sé í samþykktinni séu aðför að rekstri verslunar- og þjónustufyrirtækja í miðborginni. Þróunarfélagið fagnar því hins vegar að fjölga eigi bílastæðum í bílastæðahúsum en það megi ekki verða til þess að fækka þeim stæðum sem eru við götur miðborgarinnar.

Í tilkynningu frá Árna Þór Sigurðssyni, formanni umhverfisráðs Reykjavíkur, kemur fram að hvergi í samgöngustefnu borgarinnar sé það markmið sett að fækka bílastæðum í miðborginni, aðeins lögð áhersla á að þau fari í vaxandi mæli í bílastæðahús. Fullyrðing Laugavegssamtakanna eigi því ekki við rök að styðjast og byggist að því er virðist á rangtúlkun á samþykktri stefnumótun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×