Sport

Sacramento burstaði meistarana

Bonzi Wells hefur spilað frábærlega með Sacramento í síðustu tveimur leikjunum gegn San Antonio
Bonzi Wells hefur spilað frábærlega með Sacramento í síðustu tveimur leikjunum gegn San Antonio NordicPhotos/GettyImages

Dramatíkin í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA í vor er að verða ótrúleg og í lokaleik gærkvöldsins gerði lið Sacramento sér lítið fyrir og rótburstaði meistara San Antonio 102-84 og jafnaði metin í einvígi efsta og neðsta liðsins í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar í 2-2.

Sacramento vann sigur í þriðja leiknum með körfu um leið og lokaflautið gall, en allt annað var uppi á teningnum í fjórða leiknum í gær. Bonzi Wells fór hamförum í liði Sacramento með 25 stigum og 17 fráköstum, Brad Miller skoraði 19 stig, Mike Bibby skoraði 16 og Ron Artest 14.

Tony Parker var stigahæstur í liði meistaranna með 22 stig og Tim Duncan skoraði 17 stig og hirti 8 fráköst, en ljóst er að þetta einvígi verður engin lautarferð fyrir efsta lið Vesturdeildarinnar eins og allir reiknuðu með eftir stórsigur í fyrsta leik liðanna.

Fyrsta umferð úrslitakeppninnar í ár hefur verið einhver sú opnasta og skemmtilegasta í fjölda ára, en eins og þeir vita sem fylgjast með gangi mála vita - er aðeins eitt lið taplaust í allri úrslitakeppninni, í flestum einvígjunum er allt í járnum og í nokkrum er komin upp mjög óvænt staða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×