Sport

Milwaukee Burstaði Detroit

Michael Redd var sjóðandi heitur gegn Detroit í nótt
Michael Redd var sjóðandi heitur gegn Detroit í nótt NordicPhotos/GettyImages

Nokkuð óvænt úrslit urðu í úrslitakeppni NBA í nótt þegar Milwaukee burstaði Detroit 124-104 á heimavelli sínum og minnkaði muninn í 2-1 í einvígi liðanna. New Jersey jafnaði metin í 2-2 gegn Indiana, en Dallas og LA Clippers eru nú hársbreidd frá því að komast í aðra umferð eftir að liðin unnu sinn þriðja leik í rimmum sínum.

Michael Redd fór fyrir liði Milwaukee í sigrinum á Detroit og skoraði 40 stig og TJ Ford átti 15 stoðsendingar. Chauncey Billups skoraði 26 stig fyrir Detroit.

New Jersey lagði Indiana á útvelli 97-88 og jafnaði metin í 2-2 í einvíginu. Vince Carter skoraði 28 stig fyrir New Jersey en Jermaine O´Neal var með 22 stig fyrir Indiana.

Dirk Nowitzki skoraði 36 stig fyrir Dallas sem lagði heillum horfið lið Memphis 94-89 á útivelli eftir framlengdan leik. Chucky Atkins skoraði 20 stig fyrir Memphis, en liðið hefur enn ekki unnið leik í úrslitakeppni í 11 tilraunum í sögu félagsins og nú blasir ekkert við liðinu annað en sumarfríið, enda er Dalls komið í 3-0 í rimmunni.

Loks fór lið LA Clippers langt með að tryggja sig í næstu umferð með fyrirhafnarlitlum útisigri á Denver á útivelli 100-86 og er nú komið í 3-1 í einvíginu. Leikmenn Denver voru hreint út sagt sorglega slakir í leiknum og virðast vera búnir að gefast upp. Corey Maggette skoraði 19 stig fyrir Clippers, en Carmelo Anthony skoraði 17 stig fyrir Denver.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×