Erlent

Hvetja Íraka til að mynda starfhæfa ríkisstjórn

Condolezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands.
Condolezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands. MYND/AP

Condolezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, hvöttu Íraka til þess að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem fyrst en þau eru nú stödd í Írak. Andstaða gegn Íraksstríðinu magnast í Bandaríkjunum.

Eftir tveggja daga heimsókn Rice til Bretlands komu Rice og Straw í óvænta heimsókn til Íraks í gærmorgun. Þar hafa þau fundað með bæði með Jalal Talabani, forseta landsins, og Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra Íraks.

Erfiðlega hefur gengið að mynda starfhæfa ríkisstjórn í landinu síðan þingkosningar fóru fram í desember. Kúrdar og súnníar vilja að al-Jaafari forsætisráðherra víki og segja mikilvægt að sátt náist um næsta forsætisráðherra. Rice sagði í dag að miklvægt væri að næsti forsætisráðherra Íraks sé sterkur leiðtogi sem sameinað gæti þjóðina. Heimsókn þeirra Rice og Straw er ætlað að þrýsta á Íraka að mynda þjóðstjórn sem fyrst. Þau lögðu þó áherslu á að það væru Írakar einir sem gætu valið sér nýjan forsætisráðherra.

Á meðan magnast andstaða við Íraksstríðið í Bandaríkjunum. Íbúar í Winsconsin fylki munu í vikunni geta kosið um stríðið í kosningu sem skipulögð er af andstæðingum Íraksstríðsins. Með söfnun undirrskrifta tókst þeim að fá kosningu í geng á því hvort að bandarískir hermenn eigi að yfirgefa Írak. Kosningin hefur ekkert lagalegt gildi en niðurstaðan getur gefið mynd af því hver hin raunverulega andstaða við Íraksstríðið er í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×