Viðskipti innlent

Spá 0,5 prósenta hækkun stýrivaxta

Seðlabankinn kynnir vaxtaákvörðun sína í fyrramálið auk þess sem verðbólguspá verður birt. Greiningardeildir bankanna búast almennt við 0,5 prósenta hækkun stýrivaxta. Verði það raunin verða stýrivextir 11,25 prósent hér á landi.

Greiningardeild Glitnis útilokar ekki að Seðlabankinn hækki vexti sína meira, eða um 0,75 prósent. Segir greiningardeildin að vaxtahækkunin muni styðja við gengi krónunnar og stuðla að minni verðbólgu. Þá býst bankinn við að verðbólga muni aukast tímabundið á allra næstu mánuðum og bendi flest til þess að hún muni fara yfir 6 prósent.

Greiningardeild KB banka býst sömuleiðis við 0,5 prósenta hækkun stýrivaxta en telur líkur á að Seðlabankinn muni hækka vextina enn á ný um 0,25 prósent á þriðja ársfjórðungi. Ekki er búist við hækkun stýrivaxta á fjórða ársfjórðungi og þeim fyrsta á næsta ári. Þá telur greiningardeildin líkur á vaxtalækkun á öðrum ársfjórðungi 2007 og ályktar hún að á seinni hluta næsta árs verði stýrivextir Seðlabankans 9 prósent.

Greiningardeild Landsbankans tók í sama streng í gær og segir að stýrivextir hafi fyrst og fremst áhrif á eftirspurn til lengri tíma en segir engan vafa á að Seðlabankinn geti haft áhrif á verðbólguskotið sem framundan sé með 75-100 punkta vaxtahækkun. „Hressileg vaxtahækkun mun ... hafa meiri áhrif á verðtryggða vexti á skuldabréfamarkaði og þar með vexti húsnæðislána. Þau áhrif eru nauðsynleg til að draga úr hækkun húsnæðisverðs, sem er lykilatriði í því að ná niður verðbólgu næstu missera. Miklir hagsmunir eru í húfi, m.a. endurskoðun kjarasamninga í haust, og mikilvægt að nota tæki Seðlabankans til að sporna við á meðan hægt er," segir í Vegvísi Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×