Viðskipti innlent

Jóhann Ólafsson & Co kaupir Volta ehf

Jóhann Ólafsson & Co hefur keypt allt hlutafé í Volta ehf. Í kjölfarið fer í hönd áreiðanleikakönnun og munu eigendaskiptin fara fram þann 4. apríl næstkomandi.

Volti ehf. var stofnað árið 1945 af Magnúsi Hannessyni, rafvirkjameistara, og hefur verið rekið sem fjölskyldufyrirtæki síðan, að því er fram kemur í tilkynningu um kaupin. Það hefur verið leiðandi fyrirtæki á Íslandi í sölu, þjónustu og viðgerðum á flóknum rafbúnaði.

Á seinni árum hefur verið lögð áhersla á beinan innflutning og sölu á rafbúnaði og hefur þessi þáttur starfseminnar farið ört vaxandi. Helstu söluvörur Volta eru t.d. ABB Control sjálfvör, lekaliðar ofl., Berker hússtjórnarkerfi og innlagnaefni, Hioki handmælar, ABB og Schneider Electric millispennurofabúnaður, WEG rafmótorar ásamt Window Master reykræsi- og loftræsibúnaði svo fátt eitt sé nefnt.

Hjá Volta ehf starfa nú 17 manns: Rafvélavirkjar, rafvirkjar, raftæknar, rafmagnsverkfræðingar og fólk með viðskiptamenntun.

Jóhann Ólafsson & Co hefur frá árinu 1948 flutt inn OSRAM ljósaperur og sér með kaupunum góð sóknarfæri til að auka viðskiptin við núverandi viðskiptavini sína og skapa ný viðskiptatengsl, að því er segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×