Sport

Weiss rekinn frá Seattle

Vitað var að Bob Weiss ætti eftir að eiga erfitt með að toppa frábæran árangur Seattle undir stjórn Nate McMillan í fyrra, en þá kom Seattle í raun allra liða mest á óvart í deildinni
Vitað var að Bob Weiss ætti eftir að eiga erfitt með að toppa frábæran árangur Seattle undir stjórn Nate McMillan í fyrra, en þá kom Seattle í raun allra liða mest á óvart í deildinni NordicPhotos/GettyImages

NBA-lið Seattle Supersonics rak í gær þjálfara sinn Bob Weiss og er aðstoðarmaður hans Bob Hill tekinn við þjálfun liðsins þangað til eftirmaður Weiss er fundinn. Gengi Seattle hefur verið upp og ofan það sem af er vetri en illa hefur gengið að byggja á góðum árangri sem náðist svo óvænt í fyrra, þegar liðið fór lengra en nokkurn óraði fyrir í úrslitakeppninni.

Seattle hefur unnið 13 leiki og tapað 17 í vetur, en liðið hafði tapað fimm af síðustu sjö leikjum sínum þegar Weiss var rekinn. "Liðið hefur í raun verið eins og táknmynd óstöðugleikans í vetur. Við höfum farið vandlega yfir málin á síðustu tveimur vikum, en nú þótti okkur rétt að breyta til og skipta um þjálfara," sagði Rick Sund, framkvæmdastjóri Seattle.

Weiss er annar þjálfarinn í vetur sem er látinn taka pokann sinn í NBA deildinni, en áður hafði Stan Van Gundy hætt hjá Miami Heat af fjölskylduástæðum sem var í raun fínt orð yfir það þegar Pat Riley ákvað að taka sjálfur við liðinu ásamt því að vera forseti félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×