Erlent

Nærri hálf milljón manna er enn á vergangi í Pakistan

Hamfaranna minnst í bæn. Efnt var til bænastundar í Muzaffarabad klukkan 8.52 í gærmorgun að staðartíma, en á þeirri mínútu hófst jarðskjálftinn fyrir réttu ári.
Hamfaranna minnst í bæn. Efnt var til bænastundar í Muzaffarabad klukkan 8.52 í gærmorgun að staðartíma, en á þeirri mínútu hófst jarðskjálftinn fyrir réttu ári.

Pakistanar minntust þess í gær að eitt ár var liðið frá því að jarðskjálftinn mikli reið þar yfir. Efnt var til mínútuþagnar til að minnast þeirra sem fórust og haldnar voru minningarathafnir víða um land.

Meira en áttatíu þúsund manns fórust þegar skjálftinn, sem mældist 7,6 stig á Richterkvarða, varð þann 7. október árið 2005. Þrjár og hálf milljón manna missti heimili sitt og enn er nærri hálf milljón á vergangi.

Einn þeirra, sem enn hafa ekki fundið sér samastað, er Mohammad Shafiq, sem barðist við tárin þegar hann og synir hans sátu við legsteina móður þeirra og systur. Hann býr enn í tjaldi.

"Ég veit ekki hvað gerist í lífi mínu, í framtíðinni. Það er eins og ekkert hafi breyst frá því að hamfarirnar urðu," sagði hann og sagðist ekki eiga sér mikla von.

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, hélt í gær til borgarinnar Muzaffarabad, höfuðborgar pakistanska hlutans í Kasmírhéraði þar sem jarðskjálftinn olli mestu tjóni. Þar tók hann þátt í hátíðlegri minningarathöfn þar sem fólk stóð kyrrt í þögn í borginni, sem venjulega iðar af lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×