Erlent

Leita forsætisráðherra

Friðsamt valdarán. Íbúar Bangkok hafa flestir hverjir tekið hermönnum vel og hengt blóm á skriðdreka þeirra.
Friðsamt valdarán. Íbúar Bangkok hafa flestir hverjir tekið hermönnum vel og hengt blóm á skriðdreka þeirra.

Herforingjastjórnin í Taílandi fundaði um helgina um möguleg forsætisráðherraefni. Talið er að þeir muni láta konung Taílands, Bhumibol Adulyadej, fá lista yfir þá einstaklinga sem þeir telja hæfa og verður lokaákvörðunin í höndum konungsins.

Meðal þeirra sem telja má víst að séu á listanum eru Supachai Panitchpadki, fyrrverandi yfirmaður Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), Chatumongol Sonakul, fyrrverandi seðlabankastjóri, Pridiyathorn Devakula, núverandi seðlabankastjóri, og Ackaratorn Chularat, forseti hæstaréttar. Konungurinn mun tilkynna val sitt næsta miðvikudag og mun komandi forsætisráðherra fara með völd fram að kosningum sem fram fara í október á næsta ári.

Herforingjastjórnin hefur verið gagnrýnd af ýmsum mannréttindasamtökum fyrir að banna alla opinbera fundi og ritskoða og banna fjölmiðla andvíga valdaráninu. Valdaránið hefur ekki kallað á blóðsúthellingar en fyrsti almenni mótmælafundurinn fór fram á laugardag. Hann var leystur upp án átaka enda hefur hermönnum verið skipað að sýna borgurum vinsamlegt viðmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×