Viðskipti innlent

Auki vægi erlendra skuldabréfa

Stefán B. Gunnlaugsson
Stefán B. Gunnlaugsson MYND/Örlygur

Stefán B. Gunnlaugsson, sérfræðingur hjá Íslenskum verðbréfum og aðstoðarprófessor við Háskólann á Akureyri, segir að alþjóðleg skuldabréf ættu að vega meira í heildareignum lífeyrissjóðanna. Hlutfallið er rúmt þrjú prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna en hann telur æskilegt að það fari í tíu til fimmtán prósent.

„Ástæðan er kannski ekkert óeðlileg því að raunávöxtun erlendra skuldabréfa hefur verið léleg ef menn eyða ekki út gengisáhættu. Ávöxtunin hefur verið innan við tvö prósent,“ segir Stefán, en hann var meðal frummælenda á ráðstefnu sem Íslensk verðbréf og Standard Life Investment stóðu að fyrir fagfjárfesta á Akureyri. Ef gengisáhættu væri sleppt hefðu erlend skuldabréf skilað 5,5-6 prósenta raunávöxtun að meðaltali sem er viðunandi. Því gæti verið mikill ávinningur að fjárfesta í erlendum skuldabréfum að mati Stefáns.

Raunávöxtun af innlendum skuldabréfum hefur verið mjög góð síðustu tíu til fimmtán árin en horfur eru á því að hún fari lækkandi. Stefán býst við því að ef fagfjárfestar sjái fram á lækkandi ávöxtun þá hljóti menn að horfa á erlend skuldabréf í auknum mæli, þá einkum bandarísk, evrópsk og japönsk.

Stefán bendir ennfremur á að kaup á erlendum skuldabréfum dreifi áhættu í eignasafni lífeyrissjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×