Erlent

Sendi SMS-skilaboð til móður sinnar

Elizabeth Shoaf
Elizabeth Shoaf

Elizabeth Shoaf, 14 ára stúlku frá Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, var bjargað ómeiddri frá mannræningja í fyrradag eftir að henni hafði tekist að senda SMS-skilaboð úr farsíma ræningjans til móður sinnar. Ekkert hafði spurst til hennar síðan 6. september.

Lögreglan handtók í gær Vinson Filyaw, 37 ára gamlan mann, sem grunaður er um að hafa haldið stúlkunni fanginni í holu. Hann verður kærður fyrir mannrán, vörslu ólöglegrar sprengju og að dulbúast sem lögreglumaður.

Prísund stúlkunnar Elizabeth Shoaf var haldið fanginni í skítugri holu í rúma viku af ræningja sínum. Fréttablaðið/AP

Að sögn rannsóknarlögreglu þóttist Filyaw vera lögreglumaður þegar hann hitti Shoaf og gekk með hana út í skóg. Hann hélt henni svo fanginni í tæplega fimm metra djúpri holu sem hann huldi með krossviði. Í holunni var handgrafið klósett, eldunaraðstaða og útskornar hillur. Í prísundinni hótaði Filyaw stúlkunni með heimatilbúnum handsprengjum og byssu sem skýtur neyðarblysum.

Lögreglan fékk ábendingu um ferðir mannræningjans frá konu sem sagði hann hafa reynt að ræna bíl sínum fyrir utan pítsustað. Lögreglan hafði áður reynt að handtaka manninn á heimili hans, en hann flúði gegnum göng úr svefnherbergi sínu út í kofa þar sem hann faldist. Hans hafði áður verið leitað vegna gruns um að hafa áreitt 12 ára stelpu kynferðislega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×