Erlent

Þrýstingur eykst á Leijonborg

Fredrik Reinfeldt
Fredrik Reinfeldt

Sænska lögreglan upplýsti í gær að alls væru þrír starfsmenn ungliðahreyfingar Þjóðarflokksins grunaðir um að hafa átt þátt í að brjótast inn í tölvukerfi Jafnaðarmannaflokksins; það er einum fleiri en áður hafði komið fram. Framkvæmdastjóri flokksins sagði af sér vegna málsins í fyrradag og eftir því sem meira er um málið fjallað í sænskum fjölmiðlum eykst þrýstingur á flokksformanninn Lars Leijonborg um að taka líka pokann sinn, nú þegar tíu dagar eru til þingkosninga í landinu.

Fredrik Reinfeldt, formaður Hægriflokksins og forsætis­ráðherraefni kosningabandalags borgaralegu flokkanna, sem Þjóðarflokkurinn á aðild að, lýsti því yfir í gær að vissulega væru það alvarlegir hlutir sem hefðu þarna átt sér stað, en að hans mati hefði flokksforystan „sýnt skýr og snögg viðbrögð“.

Á fréttavef Dagens Nyheter er haft eftir Reinfeldt að það sé ekki í hans verkahring heldur flokksmanna í Þjóðarflokknum að segja til um hvort flokksformaðurinn Leijonborg njóti áfram trausts þeirra. Reinfeldt sagði ummæli Maritu Ulvskog, fjölmiðlafulltrúa jafnaðarmanna, sem líkti Leijonborg við nauðgara, vera högg undir beltisstað sem dæmdi sig sjálft.

Stjórnmálaskýrendur hafa bent á að vert væri að spyrja hvers vegna jafnaðarmenn hefðu fyrst nú, svo skömmu fyrir kosningar, lagt fram kæru vegna hinna meintu innbrota í tölvukerfi þeirra, eftir að í ljós er komið að þeir höfðu sannanir fyrir þeim þegar í marsmánuði síðastliðnum.

Stjórnmálafræðingurinn Magnus Hagevi við háskólann í Växsjö tjáir fréttavef Dagens Nyheter í gær að tölvunjósna-hneykslið gæti rúið Þjóðarflokkinn það miklu fylgi að hann kynni að eiga á hættu að falla niður fyrir fjögurra prósenta markið, sem er þröskuldurinn til að komast á þing. Það gæti ráðið úrslitum kosninganna, þar sem þar með gæti borgaraflokkabandalagið misst þann nauma meirihluta sem það hefur mælst með í skoðanakönnunum að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×