Erlent

Heilbrigðisráðherra segi af sér

Thabo Mbeki Forseti Suður-Afríku fékk bréf í gær þar sem stefna stjórnarinnar  er fordæmd.
Thabo Mbeki Forseti Suður-Afríku fékk bréf í gær þar sem stefna stjórnarinnar er fordæmd. MYND/AP

Yfir 80 alþjóðlegir vísindamenn og háskólaprófessorar fordæmdu stefnu Suður-Afríku hvað varðar eyðni og HIV, kölluðu hana gagnlausa og ósiðlega, og fóru fram á að heilbrigðisráðherra landsins segði af sér í bréfi sem þeir sendu forseta landsins, Thabo Mbeki, í gær.

Sögðu vísindamennirnir Manto Tshabalala-Msimang ráðherra vera smán fyrir landið, en hún hefur lagt til að sjúklingar borði hvítlauk, rauðrófur, sítrónur og afrískar kartöflur til að lækna eyðni.

Meðal þeirra sem skrifuðu undir bréfið eru Nóbelsverðlaunahafinn David Baltimor og Robert Gallo, sem var einn þeirra sem uppgötvuðu HIV-vírusinn og hannaði fyrstu HIV-blóðprufuna.

Forsetinn hefur sjálfur sagst efast um tengslin milli HIV og eyðni.

Talið er að um 5,5 milljónir Suður-Afríkumanna séu smitaðir af HIV og daglega deyja yfir 900 manns úr sjúkdómnum. Ríkisstjórnin lét ekki gefa eyðnismituðum lyf fyrr en árið 2002, þegar dómstólar neyddu hana til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×