Erlent

Tony Blair hætti með reisn

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands 38 þingflokksmenn Blairs munu hafa skrifað undir plagg þess efnis að hann segi af sér.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands 38 þingflokksmenn Blairs munu hafa skrifað undir plagg þess efnis að hann segi af sér. MYND/AP

Minnismiða ráðgjafa Tonys Blair var lekið til fjölmiðla í gær og á sama tíma fréttist af undirskriftasöfnun þingflokksmanna hans, en 38 þeirra munu hafa skrifað undir plagg þess efnis að forsætisráðherrann segi af sér. Að auki er haft eftir einum ráðherra hans, David Miliband, að það væri viðurkennd speki að Blair segði af sér innan eins árs. Á miðanum og á listanum mun undirstrikað mikilvægi þess að hann hætti með reisn.

Til stendur að undirbúa nokkur viðtöl í sjónvarpsþáttum, sem ekki teljast pólitískir, ásamt heimsóknum í einar sex borgir og myndatökum við tuttugu eftirminnilegar byggingar sem risið hafa eða verið endurgerðar í stjórnartíð Blairs. Flagga skal almennum sigri Blair-hyggjunnar, fremur en einstökum afrekum forsætisráðherrans, og nauðsynlegt er að horfast í augu við óvinsældir Íraksstríðsins áður en að kveðjustund kemur, að mati ráðgjafa Blairs.

Ef marka má nýlega könnun vill um 51 prósent Breta að Blair segi af sér og er óvinsældum hans kennt um að einungis þrjátíu prósent styðji Verkamannaflokkinn.

Blair sjálfur er þögull sem gröfin um væntanlega afsögn og hefur hvatt fólk til að hætta bollaleggingum og leyfa sér að vinna vinnuna sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×