Erlent

Friðarsamkomulag hefur verið undirritað

Pakistanskur hermaður Fylgist með landamærum Afganistans og Pakistans.
Pakistanskur hermaður Fylgist með landamærum Afganistans og Pakistans. MYND/AP

Fulltrúi stjórnvalda í Pakistan og einn af leiðtogum herskárra hópa í héraðinu Norður-Waziristan undirrituðu í gær friðarsamkomulag sem vonir standa til að bindi enda á ófrið í héraðinu, sem liggur vestantil í norðurhluta Pakistans, þétt við landamæri Afganistans.

Pakistanskir hermenn hafa í nærri fimm ár átt í átökum í þessu héraði við herskáa hópa, eða allt frá því þúsundir pakistanskra hermanna voru sendir þangað í beinu framhaldi af innrás Bandaríkjanna, Breta og fleiri ríkja í Afganistan.

Samkvæmt friðarsamkomulaginu lofar pakistanski herinn að hætta aðgerðum sínum í héraðinu. Í staðinn skuldbinda hinir herskáu hópar sig til þess að hætta árásum á pakistanska hermenn. Einnig skuldbinda þeir sig til þess að hætta því að fara yfir landamærin til Afganistans til þess að ráðast þar á bandaríska og afganska hermenn.

Hinir herskáu hópar í Norður-Waziristan eru taldir mannaðir bæði heimamönnum, sem hliðhollir eru talibönum, og útlendingum sem tengjast Al Kaída. Margir telja einnig að Osama bin Laden, höfuðpaur Al Kaída, hafi verið í felum meðal stuðningsmanna sinna í Norður-Waziristan allar götur frá því hann flúði frá Afganistan. Gagnrýnendur samkomulagsins segja það eingöngu bera þess vott að pakistanska hernum hafi ekkert orðið ágengt við að brjóta á bak aftur vopnaða hópa í héraðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×