Erlent

Fossmo var alvaldur í söfnuðinum

Lögregla kölluð til Barnfóstra fjölskyldunnar játaði á sig morðið fljótlega eftir að rannsókn lögreglu hófst en presturinn játaði ekki fyrr en í sjónvarpsviðtali í vikunni.
Lögregla kölluð til Barnfóstra fjölskyldunnar játaði á sig morðið fljótlega eftir að rannsókn lögreglu hófst en presturinn játaði ekki fyrr en í sjónvarpsviðtali í vikunni.

Sænski presturinn Helge Fossmo hefur viðurkennt að hafa skipulagt morð á eiginkonu sinni í bænum Knutby í Svíþjóð fyrir nokkrum árum. Fossmo viðurkenndi morðið í sjónvarpsviðtali í síðustu viku, að sögn vefútgáfu Expressen.

Í ársbyrjun 2004 var lögreglu tilkynnt um skotárás á tvo menn í Knutby, þar á meðal eiginkonu Fossmos sem fannst látin í rúmi sínu. Barnfóstra fjölskyldunnar, Sara Svensson, játaði strax á sig morðið.

Nokkrum vikum síðar var Helge Fossmo tekinn höndum. Um leið hófst rannsókn á andláti fyrri eiginkonu hans sem lést þegar hún datt í baði árið 1999.

Við rannsókn lögreglu kom í ljós að Fossmo hafði ægivald yfir barnfóstrunni, hafði skipulagt morðið á eiginkonu sinni og notað Svensson sem handbendi sitt. Þetta var þó aðeins hluti af heildarmyndinni því Fossmo var alvaldur í söfnuðinum í Knutby. Söfnuðurinn hafði einangrað sig frá umheiminum.

Sumarið 2004 var Svensson dæmd til vistar á réttargeðdeild en Fossmo dæmdur í ævilangt fangelsi. Hann var dæmdur á grundvelli skipana í sms-skilaboðum til Svensson en hann hefur alltaf neitað hlutdeild í morðinu þar til nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×