Erlent

Klasasprengjur í íbúðahverfum

Líbanir róta í rústunum Sprenglingar innan úr klasasprengjum eru á stærð við gosdósir og geta því víða leynst.
Líbanir róta í rústunum Sprenglingar innan úr klasasprengjum eru á stærð við gosdósir og geta því víða leynst. MYND/AP

Fjöldi lítilla virkra sprengja hefur fundist víðs vegar um Suður-Líbanon, inni í görðum, úti á svölum, leikvöllum og á götum úti. Sprengjurnar eru litlu stærri en gosdósir og vitað er um tvö börn sem hafa látið lífið eftir að hafa leikið sér með þær. Einnig hafa sprengjurnar banað átta fullorðnum og sært tæplega fjörutíu manns, eftir að vopnahléi var komið á og Líbanar sneru aftur heim til sín.

Sprengjurnar eru kallaðar „sprenglingar“ og eru úr klasasprengjum, stórum hylkjum sem opnast í loftinu og hleypa út fjölda lítilla sprenglinga sem dreifast víða. Samkvæmt Genfar-samningnum er bannað að varpa klasasprengjum á íbúðahverfi.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna segir að 285 svæði hafi fundist þar sem klasasprengjum hafði verið varpað og um þrjátíu til viðbótar finnist daglega.

Sprengjurnar keypti Ísraelsher af bandarískum yfirvöldum, en þau hafa fyrirskipað að rannsakað verði hvort Ísraelar hafi brotið leynisamninga við ráðamenn í Washington. Samkvæmt þeim samningum átti ekki að nota klasasprengjurnar nema á hernaðarleg skotmörk. New York Times segir ólíklegt að Ísraelum verði beinlínis refsað fyrir að brjóta samninginn; rannsóknin sé gerð til að liðka fyrir í samskiptum George W. Bush við arabaheiminn. Þó hafa Bandaríkjamenn seinkað um óákveðinn tíma að senda aðra gerð klasasprengna til Ísraels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×