Erlent

Ísraelar samþykkja að gera hlé á hernaðaraðgerðum

rústir í beirút Fimmtán þúsund líbanskir hermenn ásamt svipuðum fjölda friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna verða sendir til suðurhluta Líbanon á næstunni. Þeirra hlutverk er að framfylgja vopnahléinu.
rústir í beirút Fimmtán þúsund líbanskir hermenn ásamt svipuðum fjölda friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna verða sendir til suðurhluta Líbanon á næstunni. Þeirra hlutverk er að framfylgja vopnahléinu.

Ríkisstjórn Ísraels samþykkti einróma í gær að gera hlé á hernaðaraðgerðum í Líbanon. Vopnahléið tók gildi klukkan fimm að íslenskum tíma í nótt.

Tillagan um vopnahlé kemur í kjölfar ályktunar sem Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á laugardaginn. Þar var þess krafist að öllum hernaðarátökum Í Líbanon verði hætt tafarlaust. Ríkisstjórn Líbanon og leiðtogi Hizbollah-samtakanna höfðu áður samþykkt að heiðra þetta vopnahlé.

Eftir að átökum lýkur halda fimmtán þúsund líbanskir hermenn ásamt svipuðum fjölda af friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna til suðurhluta Líbanon til að framfylgja vopnahléinu.

Líkurnar á að átök haldi áfram þrátt fyrir vopnahlé eru taldar miklar, en ísraelski herinn ætlar ekki að fara fyrr en líbanski herinn ásamt friðargæsluliðum koma. Einnig hafi áframhaldandi sókn Ísraela inn í Líbanon gert það að verkum að margir Hizbollah-liðar séu fastir á bak við hernaðarlínu Ísraela.

Forsætisráðherra Ísraels, Ehud Olmert, sagði þessa samþykkt um vopnahlé tryggja að Hizbollah hætti að vera til sem ríki innan ríkis.

Ísraelski herinn verður dreginn til baka þegar líbanski herinn og friðargæsluliðar koma, sagði utanríkisráðherra Ísraels, Tzipi Livni. Hann sagði ákvörðun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna góða fyrir Ísrael og að hún muni breyta leikreglum í Líbanon á áhrifaríkan hátt.

Leiðtogi Hizbollah-samtakanna, Hassan Nasrallah, hafði áður sagt að hans menn haldi áfram að berjast á meðan ísraelskur her sé í Líbanon.

Hizbollah skutu í gær yfir tvö hundruð eldflaugum á Norður-Ísrael með þeim afleiðingum að einn ísraelskur borgari dó. Sama dag skutu Ísraelskar þotur á búðir Hizbollah í suðurhluta Beirút þar sem að minnsta kosti einn lést. Þoturnar skutu einnig á bensínstöðvar í suðurhluta borgarinnar Tyre. Líbönsk yfirvöld herma að tólf hafi fundist látnir eftir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×