Erlent

Rice bjartsýn á málamiðlun

Condoleezza Rice
Condoleezza Rice

Condo­leezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og aðrir háttsettir fulltrúar aðildarríkja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kepptust í gær við að koma saman nýrri ályktun sem ætlað er að stuðla að því að átökum Ísraelshers og Hizbollah-liða í Líbanon linni. Vonir stóðu til að samkomulag tækist í gærkvöld að bandarískum tíma, í nótt að íslenskum tíma.

Þrátt fyrir þetta ákvað Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, að fela hernum að hefja stóraukinn landhernað í Suður-Líbanon. Olmert lýsti sig óánægðan með þau drög að vopnahlésáætlun sem til umræðu voru hjá Sameinuðu þjóðunum, að því er talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins, Mark Regev, greindi frá.

Rice sagði að þessi yfirlýsing Olmerts breytti engu um að unnið væri áfram af kappi að pólitískri lausn deilunnar. „Við stefnum að því að bera nýja tillögu undir atkvæði (í öryggisráðinu) í dag,“ sagði hún síðdegis.

Ísraelskir stjórnar­erindrekar sögðu óánægju þeirra sprottna af málamiðlun sem miðaði að því að taka aukið tillit til athugasemda Líbanonsstjórnar varðandi friðargæslulið sem sent yrði í nafni SÞ til Suður-Líbanons og hefði það hlutverk að hjálpa til við að skipuleggja brottför Ísraelshers þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×