Erlent

Óbreyttum neitað um hjálp

Á flótta Þessi líbanska fjölskylda reyndi að flýja frá Beirút í gær, eftir að Ísraelsher hótaði hertum aðgerðum.
Á flótta Þessi líbanska fjölskylda reyndi að flýja frá Beirút í gær, eftir að Ísraelsher hótaði hertum aðgerðum. MYND/AP

Enn náðist ekki samkomulag í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær um orðalag ályktunar sem ætlað er að stuðla að vopnahléi milli Ísraels og Hizbollah-samtakanna í Líbanon. Þó vonast fastafulltrúi Bandaríkjanna, John Bolton, til þess að ályktunin verði samþykkt í dag.

Ráðamenn í Ísrael hafa samþykkt að ráðast dýpra inn í Líbanon, en lofuðu að láta ekki til skarar skríða strax heldur gefa öryggisráðinu örlítið meiri tíma.

Þó hertók ísraelski herinn kristnu borgina Marjayoun í gærmorgun og tóku 350 líbanska hermenn og lögreglumenn höndum.

Ástandið í Suður-Líbanon er afar slæmt og hafa hjálparstarfsmenn miklar áhyggjur af líðan óbreyttra Líbana.

Einn yfirmanna mannúðar­aðstoðar SÞ, Jan Egeland, sagði „skömm að því“ hvernig Ísraelar og Hizbollah-liðsmenn hindruðu hjálparstarfsmenn í að koma mat og öðrum nauðsynjavörum til þeirra tugþúsunda óbreyttra borgara sem enn eru á átakasvæðinu. „Hizbollah og Ísrael gætu án tafar gefið okkur aðgang. Þá gætum við hjálpað 120.000 manns í Suður-Líbanon,“ sagði Egeland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×