Erlent

Sérsveitir smala brottrækum

Tekinn Bandarísk lögregla handtekur ólöglegan innflytjanda.
Tekinn Bandarísk lögregla handtekur ólöglegan innflytjanda. MYND/AP

Yfir tuttugu þúsund ólöglegir innflytjendur hafa verið handteknir og vísað burt úr Bandaríkjunum það sem af er þessu ári og er það gríðarleg aukning frá fyrri árum. Herferðin er hluti af baráttu George W. Bush Bandaríkja­forseta gegn ólöglegum innflytjendum.

Sérþjálfaðir lögregluþjónar leita nú dyrum og dyngjum að fólki sem úrskurðað hefur verið brottrækt frá Bandaríkjunum vegna glæpa eða brota á vegabréfsáritunum þeirra og fylgja brotamönnunum síðan í flugvélarnar sem flytja þá úr landi.

Þó heimila lögin ekki að gerður sé greinarmunur á annars löghlýðnum ólöglegum innflytjendum og þeim sem tilheyra glæpagengjum eða hafa framið glæpi, og dæmdir glæpamenn eru eingöngu um fimmtungur þeirra sem handteknir hafa verið í ár. Innflytjendayfirvöld hafa því bent á að lagabreytingar séu nauðsynlegar.

„Ef fólkið sem kom hingað eingöngu til að vinna gæti gefið sig fram, þá gætum við einbeitt okkur að þeim sem [...] eru hættulegir öryggi fólks,“ sagði Julie Myers, talskona heimavarnaráðuneytisins.

Talið er að um hálf milljón ólöglegra innflytjenda sem þegar hefur verið vísað úr landi sé enn stödd í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×