Erlent

Saddam í hungurverkfalli

Saddam Hussein
Saddam Hussein

Verjendur Saddams Hussein í Írak vara við því að heilsu hans muni hraka, haldi hann áfram í hungurverkfalli sínu í fangelsinu. Þeir segja bandaríska hernámsliðið bera alla ábyrgð bíði heilsa hans tjón af.

Þeir hvetja einnig bæði Sameinuðu þjóðirnar og fleiri stofnanir, jafnt alþjóðlegar sem arabískar, til að sjá til þess að hann hljóti réttláta dómsmeðferð.

Saddam hefur neitað að borða frá því 7. júlí síðastliðinn. Þrír aðrir sakborningar í réttarhöldunum hafa verið í hungurverkfalli frá sama tíma.

Bandaríkjamenn, sem hafa Saddam í haldi, segja að hann sé við góða heilsu og daglega sé fylgst með heilsufari hans í fangelsinu.

Verjendurnir taka undir kröfur Saddams um að rannsókn verði gerð á morðinu á Khamis al-Obeidi, einum lögfræðinga hans, en al-Obeidi var þriðji lögfræðingurinn úr verjendahópi Saddams sem var myrtur frá því réttarhöldin hófust þann 19. október síðastliðinni.

Jafnframt birtu verjendurnir bréf frá Saddam til bandarísku þjóðarinnar þar sem hann segir bandarísk stjórnvöld enn ljúga að þjóð sinni. Hann segir einnig að stríðið í Írak hafi skaðað „virðingu og álit“ Bandaríkjanna í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×